Tilgátueldhúsið, Gallerí Úthverfa Ísafirði
Blýantur, kaffi og ljósmyndir á pappír, 2015 – 2016
Tvær gamlar ljósmyndir af fiskverkakonu á Ísafirði fönguðu huga minn. Ljósmyndirnar eru teknar með löngu árabili, á þeim báðum stendur konan við eldavélina sína og færir fisk upp á disk. Birtan frá eldhússglugganum minnir á birtuna í málverkum Vermeers. Andrúmsloftið, birtan og hversdagsleg endurtekningin heillaði mig og vakti hjá mér löngun til að hverfa aftur til liðins tíma þessa eldhúss og dveljast þar um stund.
Ég teiknaði safn hluta og áhalda sem gætu átt heima í skápum og skúffum þessa eldhúss. Teikningarnar eru því kyrralífsmyndir sem ásamt ljósmyndunum og hlutum skapa einskonar tilgátueldhús.
Verkinu kom ég fyrir í Gallerí Úthverfu þar sem Turnhúsið en það hét hús Ísfirsku verkakonunnar, blasir við út um glugga sýningarsalarins.
Guðbjörg Lind