Straumar

Straumar

Þar sem ég má næðis njóta

Að koma aftur á mosaeyjuna, eyju úr mosa. Henda sér í hann, láta hann taka við myrkrinu. En eins og aðrar plöntur koltvísýra og búa til súrefni, þá gleypir mosinn myrkur og framkallar von. Og það má yfirhöfuð ekki tæta upp viðkvæman mosa því tími hans er annar og miklu hæggengari.
Úr talstöð frá Lakagígum berst orðsending þess efnis, allt í bundnu máli, að mosann megi tína innan úr borginni, af umferðareyjum og af húsum, enda vaxi mosinn í borginni hraðar því sorgin sé stærri. Stjórnstöð mosans hafði fengið fregnir af hiki konunnar undir fossinum, að hún vildi ekki rífa upp díamosann, að hún vildi ekki raska ró hans. En nú er hún með hálfopinbert leyfi huldufólks og jöklamúsa og bætir við sögu þeirra nokkrum köflum sem voru við það að gleymast.

Oddný Eyr Ævarsdóttir